Kolbrún Pálína Helgadóttir fjölmiðlakona, markþjálfi og einn af talsmönnum MUNA hefur alltaf lagt mikið upp úr bæði líkamlegu og andlegu heilbrigði. Hún fjallaði á dögunum um mikilvægi þess að stunda svokallað sjálfs ást og að uppfæra sjálfan sig reglulega rétt eins og hvað annað.
Hvað þýðir að uppfæra sjálfan sig?
“Ef við skoðum lífshætti okkar og umhverfi þá þykir það ekkert nema sjálfsagt að laga það sem bilar, kaupa nýjustu útgáfurnar af tölvum, símum, úrum og þess háttar. Við viljum vera í takt við tímann og tíðarandann. En erum við það alltaf sjálf? Í amstri dagsins þá eigum við það mörg hver til og eflaust öll á einhverjum tímapunkti að gleyma því að taka stöðutékk á sjálfum okkur og tapa svolítið tengingunni við sjálfið. Skoða hvort það þurfi að laga eitthvað, athuga hvort allt sé í lagi hjá okkur sjálfum, andlega og líkamlega og okkar nánustu samböndum jafnvel og hvar þau standa. Það að uppfæra sig þýðir meðal annars það að taka samtalið við sjálfan sig og skoða sig reglulega, finna þarfir sínar og skoða hvort þær hafi mögulega breyst og uppfæra drauma sína. Það fallega er nefnilega að það má breyta draumum, skipta um skoðanir og upplifa nýjar þarfir. Það er partur af andlegum vexti okkar.”
Hvernig byrjar maður að iðka aukna sjálfsást?
“Með því að staldra aðeins við, skoða rútínuna sína, umhyggju til sjálfs síns, næringarinntökuna, hreyfinguna eða skortinn á henni, svefninn, samskipti sín við annað fólk og fleira sem spilar stóran þátt í daglega lífinu og skoða í hvaða ástandi þessir þættir eru og hvort þeir eru að hafa góð áhrif á lífið eður ey. Spyrja sig spurninga á borð við “hvernig hef ég það, líður mér vel af þessum mat, er þessi hreyfing góð fyrir minn líkama, er ég að hvílast þegar ég er þreytt, eru þessi samskipti góð fyrir mig og svo framvegis..” Sjálfsást er nefnilega beintengd við mörk, og ef maður setur ekki mörk í lífinu eru meiri líkur á að maður fjarlægist sjálfan sig og gildin sín og taki rangar ákvarðanir fyrir sig í allskyns formum. Fyrstu skrefin að aukinni sjálfsást gætu til dæmis verið að pússa til rútínuna sína, bæta við dekurbaði fyrir svefninn, vakna aðeins fyrr en venjulega og undirbúa sig fyrir daginn í rólegheitum og skoða mataræðið.”
Hvað gerir þú til þess að iðka sjálfsást?
“Ég er að æfa mig í að gefa mér meiri tíma daglega fyrir litlu hlutina sem vega samt svo stórt. Eins og að vakna snemma, taka öndunaræfingu við kertaljós, elda hafragraut og stilla mig inn í daginn. Eins er heilög regla að dekra aðeins við húðina með góðri hreinsun og kremum í lok dags sem og að hreyfa mig smá á hverjum degi. Þarna þurfti ég til dæmis að uppfæra mig því ég áttaði mig á því í þessum hugleiðingum að að það hentað mér ekki lengur að hreyfa mig hratt og með með látum. Núna eru göngutúrar til dæmis uppáhalds hreyfingin mín. Þegar maður byrjar að hlusta á sjálfan sig og heyra í sér kemur nefnilega ýmislegt í ljós. Ég gæti þess svo að umvefja mig góðu og skemmtilegu fólki sem gerir líf mitt ánægjulegt og innihaldsríkara.”
Lúxus hafragrautur Kolbrúnar;
- 1 dl. hafrar
- 1 tsk. chia fræ
- 2.dl vatn
- 1 tsk kókosolía
- ½ tsk kanill
- 1/4 tsk salt
Toppaður með múslí, bláberjum, döðlum og hnetusmjöri.
Fylgstu með Kolbrúnu Pálínu hér;